„Mjög ánægður með frammistöðu mína“

Babacar Sarr var besti maður vallarins þegar Selfoss lagði KR, 1-0 í Pepsi deild karla í knattspyrnu í kvöld.

Babacar var ánægður í leikslok og í samtali við sunnlenska.is sagði hann að Selfyssingar hafi verið betra liðið og sigurinn hafi verið sanngjarn.

„Við vorum mjög góðir í kvöld. Verkefni okkar er að halda okkar sæti í deildinni og við höfum fulla trú á því að það muni gerast. Eftir svona leik eins og í kvöld er ekki annað hægt en að vera rosalega ánægður,“ sagði Babacar í samtali við sunnlenska.is.

„Þetta var mjög erfiður leikur en við vorum fastir fyrir og börðumst vel. Ég vona að við höldum áfram svona.“

Babacar var yfirburðamaður á miðjunni í leiknum og var hann sammála blaðamanni um að hann hefði átt mjög góðan leik.

„Ég er mjög ánægður með frammistöðu mína. Ég mætti einbeittur í leikinn, við erum að spila rosalega mikilvægan leik í kvöld og þess vegna þarf maður að halda fókus. En nú er þessi leikur búinn og ég hugsa bara um næsta leik sem er gegn Fylki,“ sagði miðjumaðurinn geðþekki á sinni ágætu ensku í lokin.

Fyrri greinSelfoss úr fallsæti eftir frábæran sigur á KR
Næsta greinHlynur Geir tryggði sér titilinn