Misstu niður sjö marka forskot á lokakaflanum

Ísak Gústafsson skoraði 3 mörk fyrir Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ungmennalið Selfoss missti unninn leik niður í 33-33 jafntefli gegn Fjölni á heimavelli í Grill 66 deild karla í handbolta í kvöld.

Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik en Selfyssingar tóku frumkvæðið þegar leið á fyrri hálfleikinn og leiddu 15-14 í leikhléi.

Selfoss mætti af krafti inn í seinni hálfleikinn og náði mest sjö marka forskoti, 28-21, þegar hann var rúmlega hálfnaður. Þá fór allt í skrúfuna hjá Selfyssingum sem voru agalausir á lokakaflanum og Fjölnir minnkaði muninn jafnt og þétt. Lokamínúturnar voru spennandi en Fjölnismenn skoruðu síðustu tvö mörkin og tryggðu sér stigið með jöfnunarmarki úr hraðaupphlaupi á lokasekúndunni.

Ísak Gústafsson var markahæstur Selfyssinga með 7 mörk, Andri Dagur Ófeigsson skoraði 6, Guðjón Baldur Ómarsson 5/1, Gunnar Flosi Grétarsson og Arnór Logi Hákonarson 4 og þeir Elvar Elí Hallgrímsson og Magnús Már Magnússon skoruðu 3 mörk hvor.

Alexander Hrafnkelsson varði vel í marki Selfoss, 20 skot og var með 38% markvörslu auk þess sem hann skoraði 1 mark.

Selfoss er í 5. sæti deildarinnar með 3 stig en Fjölnir á toppnum með 5 stig.

Fyrri greinAlheimsráðstefna um fjöltrúarlegar aðgerðir sett í Skálholti á morgun
Næsta greinMilljón krónur í hraðasektir á Mýrdalssandi um helgina