Misstu niður unninn leik

Selfyssingar fóru illa að ráði sínu þegar þeir tóku á móti Haukum í N1-deild karla í handbolta í kvöld. Leiknum lauk með jafntefli, 31-31.

Gestirnir byrjuðu betur og komust í 6-12 áður en Selfyssingar vöknuðu almennilega til lífsins. Selfoss jafnaði 13-13 eftir góðan kafla í vörninni og staðan var 15-17 í hálfleik.

Síðari hálfleikur var æsispennandi en Selfoss jafnaði 17-17 og eftir það skiptust liðin á að hafa eins marks forskot. Þegar leið að lokum náði Selfoss tveggja marka forskoti 29-27 og fengu að auki tvö tækifæri á að ná þriggja marka forskoti.

Kæruleysi í sóknarleik Selfoss leiddi til þess að Haukarnir náðu að jafna auk þess sem slakir dómarar leiksins tóku rangar ákvarðanir á lokamínútunni. Selfoss leiddi með tveimur mörkum, 31-31, þegar síðasta mínúta leiksins rann upp en Haukar skoruðu tvö síðustu mörkin.

Guðjón Drengsson skoraði 10/2 mörk fyrir Selfoss, Ragnar Jóhannsson 7, Helgi Héðinsson 4, Gunnar Ingi Jónsson og Einar Héðinsson 3, Milan Ivancev 2 og þeir Andrius Zigelis og Atli Kristinsson 1.

Sebastian Alexandersson varði 14 skot í marki Selfoss og Birkir Fannar Bragason 3.

Á sama tíma vann Afturelding sigur á Fram svo að bilið milli Mosfellinga og Selfyssinga á botninum hefur aukist um eitt stig.

Fyrri greinBuðu stolin rakvélarblöð sem greiðslu fyrir eldsneyti
Næsta greinGunnar sýnir í Listagjánni