Misstu niður tveggja marka forskot

Selfyssingar misstu niður 2-0 forystu þegar liðið gerði 2-2 jafntefli við Þrótt í 1. deild karla í knattspyrnu á Selfossvelli í dag.

Fyrstu 25 mínútur leiksins voru heldur tíðindalitlar. Selfyssingar lágu til baka og reyndu svo að sprengja upp völlinn en uppspil liðsins gekk illa svo að þeir misstu boltann jafnharðan og ógnuðu marki Þróttar lítið. Javier Lacalle fékk besta færi Selfoss á 15. mínútu þegar hann tók boltann niður á markteignum en hitti hann illa og sóknin rann út í sandinn. Hinu megin á vellinum varði Jóhann Ólafur Sigurðsson vel frá Sveinbirni Jónassyni en annars var lítið að gerast upp við mörkin.

Á 27. mínútu komust Selfyssingar hinsvegar yfir þegar Magnús Ingi Einarsson komst inn í vítateig og renndi boltanum fyrir. Þróttarar hreinsuðu boltann beint á Bernard Brons sem lét vaða að marki og skoraði í bláhornið. Eftir mark Selfoss héldu Þróttarar áfram að sækja en náðu ekki að skapa sér færi. Það var því nokkuð gegn gangi leiksins að Selfoss komst í 2-0 eftir hornspyrnu á 45. mínútu. Boltinn barst þá á fjærstöngina þar sem Joseph Yoffe skoraði eins og sönnum Selfyssingi sæmir og hnakkaði boltann í netið. 2-0 í hálfleik.

Seinni hálfleikur var í járnum framan af og bæði liðin líkleg til að skora hið umtalaða þriðja mark sem getur reynst svo mikilvægt í leikjum. Þróttarar voru fyrri til og skutu sig þar inn í leikinn þegar þeir opnuðu vörn Selfoss á 63. mínútu og skoruðu laglegt mark. Fjórum mínútum síðar braut Bjarki Aðalsteinsson á sóknarmanni Þróttar inni í vítateignum og gestirnir fengu víti. Jóhann Ólafur Sigurðsson átti hins vegar ekki í miklum erfiðleikum með að verja slaka spyrnu Sveinbjörns Jónassonar – og greip boltann.

Vítið var ekki nóg til að skerpa á einbeitingu Selfyssinga sem höfðu virkað kærulausir á kafla fram til þessa. Á 70. mínútu gáfu þeir Þrótturum aukaspyrnu á stórhættulegum stað fyrir utan vítateig Selfoss og úr henni skoraði Sveinbjörn fyrir Þrótt og jafnaði 2-2.

Selfyssingar girtu sig nú í brók og Ingi Rafn Ingibergsson og Joseph Yoffe komust báðir í dauðafæri en markvörður gestanna sá við þeim og varði tvívegis vel. Síðasta færið áttu Þróttarar þegar Sveinbjörn skaut rétt framhjá úr ágætu færi á lokamínútu leiksins en niðurstaðan varð sanngjarnt 2-2 jafntefli.

Selfoss er í 6. sæti deildarinnar með 8 stig en gætu misst Fjölnismenn uppfyrir sig áður en umferðinni lýkur. Næsti leikur liðsins er á útivelli gegn toppliði Grindavíkur á fimmtudagskvöld.

Fyrri greinSælkeraverslun við Austurveginn
Næsta greinÆgir náði í stig í Hornafirði – KFR steinlá