Misstigu sig í markaleik

Hjörvar Sigurðsson.. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Knattspyrnufélag Rangæinga heimsótti Skautafélag Reykjavíkur í 5. deild karla í knattspyrnu í gærkvöldi. Með sigri hefði KFR tryggt sér sæti í úrslitakeppni deildarinnar en eftir mikinn markaleik hafði SR betur, 6-2.

Hjörvar Sigurðsson kom KFR yfir strax á 3. mínútu en SR jafnaði tveimur mínútum síðar. Skautafélagið bætti svo við tveimur mörkum undir lok fyrri hálfleiks en Rúnar Þorvaldsson minnkaði muninn í 3-2 í uppbótartímanum og þannig stóðu leikar í hálfleik.

SR voru sterkari á svellinu í seinni hálfleiknum og skoruðu þrjú mörk án þess að Rangæingar næðu að svara fyrir sig og lokatölur urðu 6-2.

Þrátt fyrir tapið á KFR góða möguleika á að komast í úrslitakeppnina en liðið þarf að sigra Afríku í lokaumferðinni á Hvolsvelli næstkomandi sunnudag. Afríka er í neðsta sæti riðilsins og hefur ekki unnið leik í sumar.

Fyrri greinMikil saga á bak við hvert verk
Næsta greinKeppt í þremur greinum starfsíþrótta