Misjöfn uppskera sunnlensku liðanna

Everage Richardson skoraði 22 stig fyrir Hamar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar vann öruggan sigur á Skallagrími en Selfoss tapaði gegn Hetti í leikjum kvöldsins í 1. deild karla í körfubolta.

Hamar fékk Skallagrím í heimsókn í Hveragerði. Heimamenn tóku leikinn í sínar hendur strax í upphafi og leiddu 43-25 í hálfleik. Seinni hálfleikur var jafnari, fjörugur og mikið skorað en lokatölur urðu 110-78.

Everage Richardson og Ragnar Ragnarsson voru stigahæstir hjá Hamri með 22 stig. Michael Philips skoraði 19 og Matej Buovac 18.

Það gekk verr hjá Selfyssingum á Egilsstöðum en heimamenn í toppliði Hattar voru mun sterkari í fyrri hálfleik og staðan var 46-25 í leikhléi. Seinni hálfleikurinn var mun jafnari en Selfyssingum tókst ekki að brúa bilið og lokatölur urðu 85-64.

Christian Cunningham var stigahæstur Selfyssinga með 26 stig og næstur honum kom Svavar Ingi Stefánsson með 9 stig.

Hamar er í 2. sæti deildarinnar með 24 stig en Selfoss er í 6. sæti með 8 stig.

Fyrri greinÞórsarar töpuðu á Akureyri
Næsta grein„Þurfum að tala meira um dauðann“