Misjöfn uppskera í Lengjunni

Magnús Hilmar Viktorsson skoraði fyrir Árborg. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Sunnlensku liðin uppskáru mismikið í Lengjubikarnum í knattspyrnu í dag og í gær. Árborg náði í þrjú stig en kvennalið Selfoss og Hamars náðu ekki að landa sigri.

Árborg tók á móti RB á Selfossi í dag. Sindri Þór Arnarson kom Árborg yfir strax á 2. mínútu leiksins en gestirnir úr RB jöfnuðu fjórum mínútum síðar. Magnús Hilmar Viktorsson kom Árborg yfir aftur undir lok fyrri hálfleiks og staðan var 2-1 í hálfleik. Árborgarar voru sterkari í seinni hálfleiknum og Sindri Þór bætti við tveimur mörkum um hann miðjan. Gestirnir minnkuðu muninn í 4-2 þegar fjórar mínútur voru eftir og þær urðu lokatölur leiksins.

Kvennalið Selfoss heimsótti Breiðablik í Kópavoginn í dag. Selfyssingar voru sterkari í fyrri hálfleiknum en tókst ekki að nýta sín færi. Breiðablik komst yfir undir lok fyrri hálfleiks og staðan var 1-0 í leikhléi. Í seinni hálfleiknum tókst Blikum að auka forskotið á 66. mínútu og fleiri urðu mörkin ekki, lokatölur 2-0.

Í gærkvöldi sótti kvennalið Hamars ÍA heim í Akraneshöllina. ÍA komst yfir á 12. mínútu og staðan var 1-0 í leikhléi. Skagakonur voru sterkari í seinni hálfleik og skoruðu tvívegis á síðasta hálftímanum, lokatölur 3-0.

Fyrri greinSindri, Johan Rönning og Vatn & veitur opna fagmannaverslun á Selfossi
Næsta greinSelfyssingar litlu skrefi á eftir