Mílanmenn höfðingjar heim að sækja

Mílan tók á móti Fjölni í 1. deild karla í handbolta í Vallaskóla í kvöld. Fjölnismenn fengu höfðinglegar móttökur og kvöddu Selfossbæ að loknum leik með 17-33 sigur í farteskinu.

Leikurinn var jafn framan af en um miðjan fyrri hálfleik hafði Fjölnir þriggja marka forskot, 5-8. Munurinn jókst til muna síðustu fimmtán mínútur fyrri hálfleiks en staðan var 9-17 í hálfleik.

Fjölnir jók forskotið strax í upphafi síðari hálfleiks og þegar 45 mínútur voru liðnar var munurinn orðinn fjórtán mörk, 12-26. Á lokakaflanum bættu Fjölnismenn um betur og að lokum skildu sextán mörk liðin að.

Magnús Már Magnússon var markahæstur hjá Mílunni með 5 mörk, Sigurður Már Guðmundsson, Magnús Öder Einarsson og Gunnar Ingi Jónsson skoruðu allir 2 mörk og Árni Felix Gíslason og Eyþór Jónsson skoruðu báðir 2/1 mörk. Óskar Kúld Pétursson og Ingvi Tryggvason skoruðu 1 mark hvor.

Sverrir Andrésson varði 8 skot í marki Mílunnar og Ástgeir Sigmarsson 6.

Næsti leikur Mílunnar er gegn Þrótti á útivelli, miðvikudaginn 23. mars kl. 19:30.

Fyrri greinUngu fólki stórlega misboðið yfir áhugaleysi stjórnmálamanna
Næsta greinStórkostlegur sigur Selfyssinga