Mílan varð undir gegn KR

Mílan tapaði 28-18 þegar liðið mætti KR í 1. deild karla í handbolta í gærkvöldi á útivelli. Liðin eru að berjast á sitthvorum enda stigatöflunnar.

Mílan var undir allan leikinn, KR komst í 4-1 og leiddi 13-6 þegar tuttugu mínútur voru liðnar. Þá kom frábær 0-3 kafli hjá Mílunni og staðan var 13-9 í hálfleik. Þeir grænu náðu ekki að ógna KR-ingum í seinni hálfleiknum. KR leiddi með sex mörkum lengst af en jók svo forskotið undir lokin.

Atli Kristinsson var markahæstur hjá Mílunni með 8 mörk, Trausti Magnússon skoraði 3, Páll Bergsson 2 og þeir Gunnar Ingi Jónsson, Viðar Ingólfsson, Leifur Örn Leifsson, Gísli Olgeirsson og Hlynur Bogason skoruðu allir 1 mark.

Mílan er með 3 stig á botni deildarinnar en á tvo leiki til góða á Hamrana sem eru í næsta sæti fyrir ofan með 6 stig. KR er í 2. sæti með 23 stig.