Mílan tapaði með einu – Selfoss steinlá

Mílan tapaði með minnsta mun á útivelli gegn Þrótti en Selfoss steinlá á heimavelli gegn toppliði Gróttu í leikjum kvöldsins í 1. deild karla í handbolta.

Mílan mætti botnliði Þróttar í Laugardalshöllinni í hörkuleik. Mílan komst í 2-6 í upphafi leiks en Þróttur jafnaði 9-9 og eftir það var markamunurinn lítill á liðunum. Staðan var 12-13 í hálfleik og Mílan hélt forystunni fram í miðjan seinni hálfleik. Þróttarar náðu hins vegar að snúa leiknum sér í vil og knýja fram eins marks sigur á lokasprettinum, 26-25.

Ívar Grétarsson skoraði 9 mörk fyrir Mílan, Atli Kristinsson 7, Eyþór Jónsson 5 og þeir Óskar Kúld, Rúnar Hjálmarsson, Magnús Már Magnússon og Einar Sindri Ólafsson skoruðu allir 1 mark. Ástgeir Sigmarsson varði 18 skot og var með 41% markvörslu.

Selfyssingar áttu alls ekki góðan leik í kvöld og eins og tölurnar benda til réðu gestirnir lögum og lofum. Staðan var 7-16 í hálfleik en munurinn jókst um átta mörk til viðbótar í síðari hálfleik, 17-34.

Guðjón Ágústsson var markahæstur Selfyssinga með 5 mörk, Elvar Örn Jónsson skoraði 4, Hörður Másson 3, Daníel Róbertsson og Andri Már Sveinsson skoruðu báðir 2 mörk og Jóhann Erlingsson 1.

Sebastian Alexandersson varði 11 skot í marki Selfoss og Helgi Hlynsson 2.

Selfoss er í 5. sæti deildarinnar með 11 stig en Mílan í 7. sæti með 5 stig.

Fyrri greinHamar og FSu í toppbaráttunni
Næsta greinÖlfus áfram þrátt fyrir tap