Mílan tapaði úti

Mílan sótti HK heim í Grill 66 deild karla í handbolta í gærkvöldi. Heimamenn höfðu góð tök á leiknum allan tímann og sigruðu 30-21.

HK komst í 6-1 í upphafi leiks og jók svo forskotið jafnt og þétt. Staðan var 16-8 í hálfleik. Seinni hálfleikurinn var betri hjá Mílunni en sigur HK var samt aldrei í hættu.

Hannes Höskuldsson var markahæstur hjá Mílunni með 6/3 mörk, Sigurður Már Guðmundsson skoraði 4, Trausti Magnússon 3, Ari Sverrir Magnússon og Gunnar Páll Júlíusson 2, Hjörtur Leó Guðjónsson 2/1 og þeir Páll Bergsson og Ketill Hauksson skoruðu sitt marki hvor.

Sverrir Andréasson heldur áfram að verja vel í marki Mílunnar, en hann varði 21 skot í leiknum, þar af þrjú vítaskot.

Mílan er með 3 stig í 9. sæti deildarinnar.

Fyrri greinHamar vann nágrannaslaginn
Næsta greinÁrborg skoraði hátt á afmælishátíð Erasmus+