Mílan tapaði fyrir toppliðinu

Mílan tók á móti toppliði Stjörnunnar í 1. deild karla í handbolta í kvöld. Gestirnir unnu auðveldan sigur, 23-32.

Leikurinn var í jafnvægi framan af fyrri hálfleik en Stjarnan var skrefinu á undan. Gestirnir tók svo á sprett um miðjan fyrri hálfleikinn og breyttu stöðunni úr 4-7 í 7-13, en staðan var 9-16 í hálfleik.

Seinni hálfleikurinn var þægilegur fyrir gestina sem héldu sex til átta marka forskoti allan seinni hálfleikinn. Lokatölur urðu 23-32.

Mílan er því áfram í 5. sæti deildarinnar með 10 stig og mætir næst Selfossi í stórleik á útivelli þann 18. desember.

Atli Kristinsson var markahæstur hjá Mílunni með 7/3 mörk, Sigurður Már Guðmundsson skoraði 4, Guðbjörn Tryggvason og Gunnar Ingi Jónsson 3, Magnús Már Magnússon og Gunnar Páll Júlíusson 2 og Óskar Kúld 1.

Ástgeir Sigmarsson varði 14 skot og var með 30% markvörslu.

Fyrri greinSnæfríður Sól stóð sig vel í Bergen
Næsta greinLögreglan flutti mann á sjúkrahús