Mílan missti af úrslitakeppninni

Mílan missti í kvöld af möguleika á sæti í umspili 1. deildar karla í handbolta þegar liðið tapaði fyrir Þrótti á útivelli, 22-30.

Leikurinn var mjög kaflaskiptur hjá Mílunni, fyrri hálfleikurinn afleitur en sá síðari góður. Leiksins verður líklega helst minnst fyrir magnaða frammistöðu Birgis Arnar Harðarsonar, forseta félagsins, sem átti magnaða innkomu í vörnina á síðustu hundrað sekúndum leiksins.

Þróttur var yfir allan tímann, komst í 6-3 og um miðjan fyrri hálfleik var staðan orðin 10-5. Munurinn jókst mikið þegar leið á fyrri hálfleikinn en tíu mörk skildu liðin að í leikhléi, 19-9.

Síðari hálfleikurinn var miklu betri af hálfu Mílunnar. Liðið lagaði varnarleikinn og sóknin var sömuleiðis markvissari. Forskot Þróttar var þó alltaf öruggt en lokatölur leiksins urðu 30-22.

Stórskyttan Ársæll Einar Ársælsson var markahæstur hjá Mílunni með 12/4 mörk. Magnús Öder Einarsson skoraði 6, Magnús Már Magnússon 2 og þeir Gunnar Ingi Jónsson og Jóhannes Snær Eiríksson skoruðu eitt mark hvor.

Ástgeir Sigmarsson varði 7/1 skot í marki Mílunnar og var með 24% markvörslu en Bogi Thorarensen 5 og var með 83% markvörslu.

Þegar ein umferð er eftir af deildinni er Mílan með 13 stig í 6. sæti, þremur stigum á eftir HK sem á tvo leiki til góða. HK fer því í umspilið og mætir þar annað hvort Selfoss eða Fjölni.

Fyrri greinSýning Gunnars stendur út mars
Næsta greinRangárþing ytra úr leik