Milan með fjögur í stórsigri Ægis

Ægir vann stórsigur á Afríku í Þorlákshöfn í kvöld, 6-1, og er komið í 2. sæti B-riðils 3. deildar karla í knattspyrnu.

Þrátt fyrir öruggan sigur var djúpt á fyrsta markinu hjá Ægismönnum og þeir geta þakkað Hlyn Kárasyni, markverði, fyrir að vera ekki undir í leikhléi. Afríka átti fyrstu færi leiksins en í tvígang varði Hlynur mjög vel.

Það var síðan Milan Djurovic sem kom Ægi yfir á 44. mínútu þegar Arnar Skúli Atlason skallaði á hann inni á markteig. Djurovic þurfti ekki mikið pláss til að klára færið og Ægir leiddi 1-0 í hálfleik.

Á þriðju mínútu síðari hálfleiks skoraði Milan aftur, nú eftir langt útspark frá Hlyni í markinu. Eftir þetta voru Ægismenn óþarflega værukærir og á 54. mínútu komst sóknarmaður Afríku inn í sendingu í öftustu línu Ægis og minnkaði muninn í 2-1.

Ægismenn gerðu síðan út um leikinn á 62. mínútu þegar Arnar Skúli átti fyrirgjöf á Milan sem kiksaði boltann inn fyrir marklínuna af stuttu færi áður en markvörður Afríku fékk boltann í hendurnar. Aðstoðardómarinn dæmdi boltann inni og eftir það var leikurinn í öruggum höndum Ægis.

Í raun gerðist fátt fyrr en á 86. mínútu að Ægismaðurinn Lárus Arnar Guðmundsson fékk sitt annað gula spjald og því snemmbúna sturtuferð. Brottreksturinn virtist fara eitthvað öfugt í Afríkuliðið því Ægir skoraði þrjú mörk á næstu fjórum mínútum. Trausti Friðbertsson og Arnar Skúli skoruðu fjórða og fimmta markið áður en Milan innsiglaði fernuna með marki úr vítaspyrnu eftir að brotið var á Danislav Jevtic.

Með sigrinum eru Ægismenn komnir í 2. sæti riðilsins með 14 stig en KFS er með einu stigi minna og á leik til góða. KFK er líka inni í myndinni með 8 stig í 4. sæti en liðið á tvo leiki til góða á Ægismenn.