Mílan á toppnum í 1. deildinni

Mílan vann öruggan sigur á HK í uppgjöri toppliða 1. deildar karla í handbolta í kvöld. Á sama tíma lagði Selfoss KR á útivelli.

Mílan heldur áfram að koma á óvart í 1. deildinni en liðið sigraði Fjölni í 1. umferðinni og lagði nú HK sannfærandi, 26.-35. Mílan er því á toppi deildarinnar ásamt Stjörnunni með 4 stig.

Leikurinn var jafn fyrsta korterið en þá tók Mílan öll völd á vellinum og leiddi 12-19 í hálfleik. Þeir grænklæddu héldu svo sínu striki í síðari hálfleik og HK menn voru aldrei nálægt því að brúa bilið.

Atli Kristinsson og Ársæll Ársælsson voru markahæstir hjá Mílunni með 9 mörk, Sævar Ingi Eiðsson skoraði 6, Magnús Már Magnússon 4, Gunnar Ingi Jónsson 3, Jóhannes Snær Eiríksson 2 og þeir Gunnar Páll Júlíusson og Eyþór Jónsson skoruðu sitt markið hvor.

Ástgeir Sigmarsson lék á alls oddi í marki Mílunnar og varði 27 skot og var með 52% markvörslu.

Öruggt hjá Selfoss í seinni hálfleik
Selfyssingar unnu sinn fyrsta sigur í deildinni þegar þeir heimsóttu KR í kvöld. Það var lítið skorað framan af en staðan var 4-3 fyrir KR þegar fyrri hálfleikur var rétt hálfnaður. Selfyssingar náðu tveggja marka forskoti í kjölfarið og leiddu svo í hálfleik, 8-12.

KR minnkaðu muninn í tvö mörk í upphafi síðari hálfleiks en þá svöruðu Selfyssingar aftur og héldu nokkuð öruggri forystu til leiksloka, þó að KR-ingar hafi aldrei verið langt undan.

Elvar Örn Jónsson var markahæstur hjá Selfyssingum með 9 mörk, Alexander Egan skoraði 4, Egidijus Mikalonis 3, Rúnar Hjálmarsson 2 og þeir Andri Már Sveinsson, Jóhann Erlingsson, Teitur Örn Einarsson, Árni Geir Hilmarsson og Hergeir Grímsson skoruðu allir eitt mark.

Næstu leikir liðanna verða föstudaginn 2. október en þá verður boðið upp á tvíhöfða í Vallaskóla. Selfoss mætir Þrótti klukkan 19:00 og Mílan mætir KR klukkan 21:00.

Fyrri greinHamar og FSu sigruðu
Næsta greinÖlfus lagði Hveragerði í Útsvarinu