Miklar framfarir í skákinni hjá þeim yngri

Laugardaginn 7. febrúar sl. stóð Umf Hekla fyrir héraðsmóti HSK í skák 16 ára og yngri í Grunnskólanum á Hellu, þar sem fjögur félög mættu með keppendur til leiks.

Mótið var skemmtilegt og sést glöggt að miklar framfarir eiga sér stað í skákinni á Suðurlandi og er það gleðilegt að sjá þar sem lögð er talsverð rækt við hana hjá einhverjum félögum. Tæplega 20 keppendur mættu til leiks og tefldar voru sex umferðir. Keppnisfyrirkomulagið var þannig að allir keppendur tefldu í einu móti en fundin var síðan út röð keppenda í hverjum flokki fyrir sig eftir stöðu þeirra í mótinu að því loknu. Engir keppendur mættu til leiks í elsta flokknum 14-16 ára.

Umf. Hekla vann stigabikar HSK og er þ.a.l. héraðsmeistari HSK, fékk félagið 32 stig. Í öðru sæti varð Þjótandi með 9 stig, í þriðja sæti varð Dímon með 1 stig og í fjórða sæti Umf. Selfoss án stiga. Heildarúrslit og fleiri myndir eru á www.hsk.is.

Úrslit flokkanna urðu eftirfarandi:

10 ára og yngri
Anton Fannar Scheving 4 vinningar
Gunnar Guðmundsson 4 vinningar
Sigurjón Reynisson 4 vinningar

11-13 ára
1. Almar Máni Þorsteinsson 5,5 vinningar
2. Katla Torfadóttir 5 vinningar
3. Heiðar Óli Guðmundsson 4,5 vinningar

Fyrri greinGefa grunnskólabörnum sólmyrkvagleraugu
Næsta greinÞrjár virkjanir í ferli