Mikilvægur sigur Þórsara

Tómas Valur Þrastarson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þór Þorlákshöfn vann mikilvægan sigur á Íslandsmeisturum Tindastóls í úrvalsdeild karla í körfubolta í kvöld á meðan Hamar tapaði stórt gegn Keflavík.

Leikur Þórs og Tindastóls á Sauðárkróki var í járnum framan af en Þórsarar leiddu í hálfleik, 39-40. Þórsarar reyndust svo sterkari í seinni hálfleiknum og unnu að lokum frábæran sigur, 79-87.

Tómas Valur Þrastarson var stigahæstur Þórsara með 22 stig og 7 fráköst, Nigel Pruitt skoraði 16 stig og tók 7 fráköst, Jordan Semple skoraði 14 stig og tók 14 fráköst og Darwin Davis skoraði 12 stig og sendi 7 stoðsendingar.

Keflvíkingar firnasterkir
Hamarsmenn áttu litla möguleika gegn firnasterkum Keflvíkingum í Keflavík í kvöld. Heimamenn tóku leikinn í hendur sér í 1. leikhluta og staðan í hálfleik var 50-33. Forskot Keflvíkinga jókst jafnt og þétt í seinni hálfleiknum og lokatölur urðu 103-72.

Franck Kamgain og Björn Ásgeir Ásgeirsson voru stigahæstir hjá Hamri, báðir með 20 stig en Kamgain tók einnig 8 fráköst og sendi 8 stoðsendingar. Dragos Diculescu skoraði 16 stig og tók 10 fráköst og Ragnar Nathanaelsson skoraði 11 stig og tók 13 fráköst.

Þegar tvær umferðir eru eftir af deildarkeppninni eru Þórsarar í 5. sæti deildarinnar með 26 stig eins og Grindavík sem er í 4. sætinu og á leik til góða. Hamarsmenn eru sem fyrr á botninum með 2 stig.

Fyrri greinAðalbjörg og Eyvindur hlutu Landbúnaðarverðlaunin 2024
Næsta greinSelfoss undirstrikaði yfirburði sína