Ægismenn lyftu sér upp í efri hluta 2. deildar karla í knattspyrnu í dag með góðum sigri á Haukum á heimavelli, 2-0.
Ægismenn voru sterkari í fyrri hálfleik og Jordan Adeyemo kom þeim yfir á 16. mínútu. Hann var síðan aftur á ferðinni á 37. mínútu og kom Ægi í 2-0.
Haukar sóttu í sig veðrið í seinni hálfleiknum, Ægir sat til baka og stóð af sér þungar sóknir Hauka á köflum.
Eftir fimm umferðir eru Ægismenn komnir upp í 2. sætið með 10 stig, eins og Haukar sem sitja í 3. sætinu með lakara markahlutfall. Mikilvægur sigur hjá þeim gulu í dag.