Mikilvægt að huga að íþrótta- og tómstundastarfi barna og unglinga á tímum COVID-19

Guðríður Aadnegard, formaður HSK. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Stjórn Héraðssambandsins Skarphéðins skorar á aðildarfélög sín að huga vel að börnum og unglingum á þessum óvissutímum COVID-19 faraldurins.

Í bókun sem var samþykkt á síðasta stjórnarfundi HSK segir að ljóst sé að faraldurinn geti haft veruleg áhrif á allt íþrótta-og tómstundastarf félaganna og ekki síst nú í haust, þegar skólastarf og vetrarstarf félaganna er að hefjast.

„Það er ljóst að atvinnuleysi er að aukast í landinu og þá er hætta á að minna sé á milli handanna hjá mörgum fjölskyldum.  Nauðsynlegt er að reyna að koma í veg fyrir að það hafi áhrif á að börn og unglingar geti ekki stunda íþróttir og annað tómstundastarf.  Hvetur stjórn HSK félögin til að taka samtal við sveitarstjórnir, hver á sínu svæði og skipuleggja markvisst eftirlit með þessu,“ segir í bókun stjórnar HSK.

Ríkisstjórn Íslands hefur samþykkt að veita 600 milljónum til sveitarfélaga til að aðstoða tekjulága foreldra, til að koma í veg fyrir brottfall barna og unglinga  úr íþróttum og tómstundum.

„Regluverk í kringum þetta er í smíðum en á meðan beðið er eftir því má ekki missa sjónar á þessu markmiði að allir geti stundað íþróttir og tómstundir óháð efnahag,“ segir ennfremur í bókun stjórnar HSK.