„Mikilvægt að hlusta á líkamann“

Hildur Grímsdóttir. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Hildur Grímsdóttir byrjaði fyrr á þessu ári að halda hlaupanámskeið á Selfossi, fyrir fólk sem er að taka sín fyrstu skref í hlaupum. Námskeiðið sló strax í gegn og hefur ásóknin verið það mikil að Hildur hefur þurft að skipta upp hópunum.

Hildur, sem er menntaður sjúkraþjálfari, segir að hún hafi upphaflega fengið spurningu varðandi hlaupanámskeið hjá áhugasömum einstaklingi sem varð til þess að hún fór af stað með þessi námskeið.

„Það kveikti í mér áhuga fyrir að halda byrjendanámskeið sem ég ákvað að hrinda í framkvæmd og sé ekki eftir því, enda mikil eftirspurn verið í allt sumar. Nú er þriðja námskeiðið í núverandi mynd að klárast, svo mun það aðeins breytast í september,“ segir Hildur í samtali við sunnlenska.is.

Hildur segir að námskeiðið sé fyrir alla sem langar að læra að hlaupa, byrjendur sem lengra komna. „Viðtökurnar við námskeiðinu hafa verið vægast sagt frábærar og mikil og góð þátttaka verið í allt sumar og stefnir í það með haustinu líka,“ segir Hildur sem átti ekki von á svona góðum viðtökum við námskeiðinu.

Margir ragir við að fara í ræktina
Hildur telur að kórónuveiran hafi haft einhver áhrif á það hversu vinsælt hlaupanámskeiðið hefur verið. „Margir sem hafa verið hjá mér byrjuðu að prófa að hlaupa í covid lokuninni í vor og langaði að fara lengra með þá iðju sína og skráði sig svo hjá mér í sumar til að læra grunnatriðin og ná lengra með hlaupin sín. Það eru líka margir ragir við að fara í líkamsræktarstöðvar á þessum tímum sem eru í gangi núna og þetta er frábær leið til að hreyfa sig með lágmarks smithættu.“

Hildur segir að það mikilvægt fyrir óvana hlaupara að fara rólega af stað. „Það er mikilvægt að hlusta á líkamann og virða mörkin sem líkaminn setur þér. Þetta er þolinmæðisvinna og best að vinna skynsamlega til að koma í veg fyrir álagsmeiðsl.“

Næsta námskeið að hefjast
„Næsta námskeið byrjar 7. september en þá breytist aðeins framkvæmdin á því og við færum okkur meira online, það er að segja það verður ein samæfing í viku en annars kemur vikulegt hlaupaprógram inn á lokaðan Facebookhóp sem þú sækir um aðgang að,“ segir Hildur.

Áhugsasamir hlauparar geta sent skilaboð á Hildi í gegnum Facebook eða Instagram, undir Hildur Grímsdóttir – kvenheilsa eða hildurgrims.

Fyrri greinSjö staðnir að hraðakstri innanbæjar
Næsta grein„Langaði að vera fátækur listamaður og túristi í eigin landi“