Mikilvæg stig til Selfyssinga

Ingi Rafn Ingibergsson er byrjaður að skora aftur fyrir Selfyssinga eftir að hafa verið í láni hjá Árborg fyrr í sumar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss vann mikilvægan sigur á Njarðvík í toppbaráttu 2. deildar karla í knattspyrnu í Njarðvík í kvöld.

Selfyssingar voru sprækari í fyrri hálfleik þó að jafnræði hafi verið með liðunum á löngum köflum. Þeir vínrauðu sköpuðu sér hins vegar betri færi og úr einu þeirra skoraði Arnar Logi Sveinsson á 12. mínútu. Það reyndist eina mark fyrri hálfleiks.

Seinni hálfleikurinn spilaðist svipað og sá fyrri og Selfyssingar komust í 0-2 á 62. mínútu eftir frábæra skyndisókn. Þormar Elvarsson lagði þá boltann fyrir Inga Rafn Ingibergsson sem skoraði af öryggi.

Njarðvíkingar minnkuðu muninn í 1-2 á 75. mínútu en annars stafaði lítil ógn af þeim. Baráttan fór fram á miðsvæðinu og þar voru Selfyssingar sterkari. Varamaðurinn Valdimar Jóhannsson innsiglaði svo 1-3 sigur Selfoss á 87. mínútu. Þór Llorens átti þá frábæra sendingu á Kenan Turudija inni á vítateignum. Markvörður Njarðvíkur varði frá Turudija en frákastið hrökk á Valdimar sem skallaði boltann í netið.

Lokatölur 1-3 og Selfyssingar hafa nú 19 stig í 3. sæti deildarinnar. Toppbaráttan er hörð en Haukar og Kórdrengir sem eru í tveimur efstu sætunum unnu einnig sína leiki í kvöld.

Fyrri greinÓku ógætilega í kringum sauðfé
Næsta greinStöðvaður tvívegis fyrir hraðakstur – með tuttugu mínútna millibili