Mikilvæg stig til Hamars í Suðurlandsslag

Hamar verður í toppbaráttu en Selfyssingar í basli ef eitthvað er að marka spárnar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Það var mikið í húfi þegar Selfoss tók á móti Hamri í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Selfoss þurfti nauðsynlega á sigri að halda til þess að blanda sér í baráttuna um sæti í úrslitakeppni deildarinnar.

Jafnræði var með liðunum í 1. leikhluta en undir lokin náðu Hamarsmenn að breikka bilið í 17-25. Selfoss skoraði hins vegar síðustu fjögur stigin í 1. leikhluta og staðan var 21-25 að honum loknum. Hvergerðingar voru sterkari í 2. leikhluta og náðu mest 11 stiga forystu, 29-40 en staðan var 39-48 í leikhléi.

Hamar hélt Selfossi í nokkuð þægilegri fjarlægð allan 3. leikhlutann en í þeim fjórða fóru leikar að æsast. Selfoss skoraði átta fyrstu stigin og minnkaði muninn í 2 stig áður en Hamar svaraði með sex stigum í röð, 68-74. Selfoss ógnaði sífellt en Hamar náði alltaf að breikka bilið. Marvin Smith Jr. setti niður tvo stóra þrista fyrir Selfoss á lokakaflanum og minnkaði muninn í 94-96 úr öðrum þeirra þegar átta sekúndur voru eftir.

Selfyssingar brutu strax á Everage Richardson sem fór á vítalínuna og setti niður annað af tveimur skotum sínum. Þarna voru 5,7 sekúndur eftir á klukkunni í stöðunni 94-97 og Selfyssingar tóku leikhlé. Flestir í húsinu veðjuðu líklega á að hinn funheiti Smith fengi síðasta skotið til þess að jafna – og sú varð raunin. Hann fann fjölina sína og átti ágætis skot um leið og lokaflautan gall en boltinn skoppaði af hringnum. Hamar fagnaði, 94-97, sigur í höfn og bilið á milli liðanna jókst á stigatöflunni.

Leikurinn var hin besta skemmtun á köflum og hefði orðið enn betri með stemmningu í stúkunni en stuðningsmenn liðanna voru prúðir eins og fermingarbörn á kirkjubekkjum.

Everage Richardson var stigahæstur hjá Hamri með 23 stig og 9 fráköst en stigaskor Selfyssinga dreifðist mikið. Marvin Smith jr., Hlynur Hreinsson og Chaed Wellian skoruðu allir 20 stig og Wellian tók 9 fráköst að auki.

Hamar hefur nú 18 stig í 5. sæti deildarinnar en Selfoss er í 6. sætinu, áfram með 14 stig.

Fyrri greinÞrír bílar í hörðum árekstri á Skeiðarársandi
Næsta greinFokk – ég er með krabbamein!