Mikilvægur sigur hjá Selfyssingum

Kvennalið Selfoss í handbolta vann mikilvægan sigur á ÍR í Olís-deildinni á Selfossi í dag. Lokatölur urðu 23-19 og Selfoss er áfram í 8. sæti deildarinnar þegar ein umferð er eftir.

Leikurinn var jafn framanaf en um miðbik fyrri hálfleiks slitu Selfyssingar sig frá gestunum og leiddu 12-9 í hálfleik.

Selfoss hóf svo síðari hálfleikinn á 5-1 áhlaupi og staðan var orðin 17-10 þegar þrettán mínútur voru liðnar af seinni hálfleik. Eftir það áttu Selfyssingar ekki í neinum vandræðum með að landa sigri

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var markahæst hjá Selfyssingum með 10 mörk, Þuríður Guðjónsdóttir skoraði 5, Hildur Øder Einarsdóttir, Perla Albertsdóttir og Carmen Palamariu skoruðu allar 2 mörk og þær Kristrún Steinþórsdóttir og Thelma Kristjánsdóttir skoruðu sitt markið hvor.

Selfoss er í 8. sæti þegar ein umferð er eftir af deildinni, einu stigi á undan HK, en liðið í 8. sæti kemst í úrslitakeppni deildarinnar. Selfoss mætir Val í lokaumferðinni á meðan HK leikur gegn Stjörnunni næstkomandi þriðjudag.

Fyrri greinHætta að selja nammi í íþróttamiðstöðinni
Næsta greinJón Daði spilaði í tuttugu mínútur