Mikilvægur sigur hjá Hamri

Hamar er í góðri stöðu í 1. deild karla í körfubolta eftir sigur á Fjölni á útivelli í kvöld, 73-87. Hamar er í 2. sæti deildarinnar þegar ein umferð er eftir.

Liðin í 2. til 5. sæti fara í umspil um sæti í Domino’s-deildinni og eins og staðan er núna er Hamar með 34 stig í 2. sæti en þar á eftir koma Breiðablik og Vestri með 32 stig.

Hamar þarf líklega sigur í lokaleiknum gegn Gnúpverjum næstkomandi föstudagskvöld til þess að tryggja sér 2. sætið. Gnúpverjar eru sýnd veiði en ekki gefin, en liðið hefur verið á miklu skriði að undanförnu.

Leikurinn gegn Fjölni í kvöld var jafn og spennandi. Fjölnismenn byrjuðu betur en Hamar svaraði fyrir sig í 2. leikhluta og staðan í hálfleik var 42-42. Fjölnir komst aftur yfir í 3. leikhluta en Hvergerðingar völtuðu yfir heimamenn í síðasta leikhlutanum og unnu hann með 30 stigum gegn 11.

Tölfræði Hamars: Þorgeir Freyr Gíslason 15/6 fráköst, Larry Thomas 11/8 fráköst/5 stoðsendingar, Kristinn Ólafsson 11, Smári Hrafnsson 10, Dovydas Strasunskas 9/4 fráköst, Jón Arnór Sverrisson 8, Ísak Sigurðarson 7/5 fráköst, Julian Nelson 6, Arnór Ingi Ingvason 5, Karl Friðrik Kristjánsson 3, Oddur Ólafsson 2.

Fyrri greinBach í þremur kirkjum
Næsta greinAnd­lát: Böðvar Páls­son