Mikilvægur sigur á Egilsstöðum

Körfuknattleiksfélag FSu vann gríðarlega mikilvægan sigur á Hetti í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Lokatölur voru 70-85 og hefur FSu nú betur í innbyrðis viðureignum liðanna í vetur.

Selfyssingar voru ekkert að tvínóna við hlutina, komust strax yfir og leiddu 5-19 eftir rúmar átta mínútur. Staðan var 10-24 eftir 1. leikhluta. FSu jók muninn í 16-37 í 2. leikhluta en Höttur minnkaði muninn í 26-42 fyrir hálfleik.

Lið FSu slakaði ekkert á í upphafi síðari hálfleik og jók muninn ennþá frekar með 4-14 leikkafla. Steven Crawford var heitur og hann jók muninn í 33-56. Eftir það jafnaðist leikurinn og staðan var 52-74 þegar síðasti fjórðungurinn hófst. Þar minnkuðu Hattarmenn muninn um átta stig en skólapiltar luku leiknum með sóma og unnu góðan sigur í einum besta leik sínum í vetur.

Steven Crawford var stigahæstur hjá FSu með 22 stig og 9 fráköst. Bjarni Bjarnason skoraði 17 stig og sendi 11 stoðsendingar og Orri Jónsson skoraði sömuleiðis 17 stig og tók 7 fráköst. Þorkell Bjarnason skoraði 11 stig.

Með sigrinum hoppaði FSu upp í 7. sæti með 8 stig en ÍG og Þór Ak sem eru fyrir neðan eiga leiki til góða á FSu.

Fyrri greinEinn poki af iðnaðarsalti á KFC á Selfossi
Næsta greinFSu lagði Snæfellinga