Mikilvægur sigur Selfyssinga

Selfyssingar unnu eins marks sigur á Leikni Reykjavík þegar liðin mættust í 1. deild karla í knattspyrnu á Selfossvelli í kvöld. Selfoss hefur sjö stiga forskot á Hauka sem eiga leik til góða.

Þjálfari Leiknis, Zoran Miljkovic, fyrrum Selfossþjálfari, fékk góðar móttökur hjá Selfyssingum sem færðu honum blóm fyrir leik. Þar með var gestrisni Selfyssinga búin því þeir tóku leikinn snemma í hendur sér og áttu tvö ágæt færi. Fyrst átti Babacar Sarr gott skot að marki sem Eyjólfur Tómasson varði í horn í marki Leiknis. Hornspyrnan rataði beint á kollinn á Babacar en Leiknismenn björguðu á línu.

Mínútu síðar fengu Selfyssingar aukaspyrnu á vítateigslínunni er einn Leiknismanna fékk boltann í höndina. Joe Tillen átti lúmska spyrnu og mátti Eyjólfur hafa sig allan við að verja í horn. Selfyssingar héldu áfram að sækja en sköpuðu helst usla eftir föst leikatriði. Leiknismenn lágu skipulega til baka og freistuðu þess að sækja hratt og þeir fengu ágætt skotfæri eftir rúman hálftíma en Jóhann Ólafur varði vel í marki Selfoss.

Besta færi fyrri hálfleiks kom svo á 37. mínútu er Ibrahima Ndiaye átti lúmska sendingu innfyrir á Joe Tillen en skot hans fór meðfram marklínu Leiknismanna og framhjá.

Staðan var 0-0 í hálfleik en strax á fyrstu mínútu seinni hálfleiks fékk komst Ibrahima í frábært færi á markteig en á einhvern undraverðan hátt náði Eyjólfur að verja.

Leikurinn var nokkuð rólegur fyrstu tuttugu mínútur síðari hálfleiks en á 63. mínútu fiskaði Babacar aukaspyrnu vinstra megin við vítateig Leiknis. Arilíus Marteinsson tók spyrnuna strax og sendi á Joe Tillen sem flengdi boltanum fyrir markið á Ibrahima. Malíbúinn var þar á auðum sjó og potaði boltanum framhjá Eyjólfi í markinu á meðan Leiknismenn voru enn að stilla sér upp í vörninni.

Eftir markið færðist nokkur harka í leikinn og ákvarðanir dómarans voru ákaflega tilviljanakenndar. Á 74. mínútu fékk Arilíus Marteinsson sitt annað gula spjald eftir klaufalegt brot en þetta var annað brot Stokkseyringsins prúða í leiknum.

Manni færri bökkuðu Selfyssingar mikið og Leiknismenn voru líklegir til þess að refsa þeim en leikurinn fjaraði út án þess að þeir næðu að ógna markinu af einhverjum þunga. Á 84. mínútu jafnaði dómarinn svo liðsmuninn þegar hann veifaði gula spjaldinu framan í Leiknismann í annað sinn fyrir litlar sakir.

Leikurinn fjaraði þannig út en aðstoðardómarinn dæmdi rangstöðumark af Selfyssingum á 94. mínútu þegar Ibrahima potaði boltanum inn af stuttu færi en var sannarlega rangstæður.