Selfyssingar spyrntu sér frá botnsætunum í Olísdeild kvenna í handbolta í kvöld með góðum sigri á Gróttu á heimavelli.
Selfoss hefur nú 9 stig í 6. sæti deildarinnar en Grótta og Fjölnir eru í tveimur sætunum, bæði lið með 4 stig.
Selfyssingar byrjuðu leikinn af krafti í kvöld og leiddu 6-2 eftir rúmlega tólf mínútna leik. Þegar rúmar fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleiknum var staðan 10-6 en þá kom frábær kafli hjá getsunum sem náðu á skömmum tíma að jafna 11-11 og þannig stóðu leikar í hálfleik.
Í upphafi seinni hálfleiks höfðu Selfyssingar frumkvæðið og þær vínrauðu voru komnar með fimm marka forskot þegar tólf mínútur voru eftir af leiknum, 18-13. Lítið var skorað á lokakaflanum en Grótta skoraði aðeins fimm mörk í seinni hálfleik og Selfoss sigraði 20-16.
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var markahæst Selfyssinga með 7 mörk, Perla Ruth Albertsdóttir skoraði 6, Harpa Brynjarsdóttir 4/2, Hulda Dís Þrastardóttir 2 og Kristrún Steinþórsdóttir 1.
Viviann Petersen varði 10 skot í marki Selfoss og var með 43% markvörslu.