Mikilvægur sigur Laugdæla

Laugdælir lögðu Leikni á útivelli með minnsta mun í botnbaráttuslag 1. deildar karla í körfubolta í dag, 72-73.

Leikurinn var jafn allan tímann en Laugdælir komust í 7-17 í upphafi áður en heimamenn svöruðu fyrir sig. Leiknir leiddi að loknum 1. leikhluta, 28-27. Það var lítið skorað í 2. leikhluta en þegar þrjár mínútur voru eftir af honum setti Pétur Már Sigurðsson niður þrist fyrir Laugdæli og kom þeim í 33-38. Laugdælir leiddu svo í hálfleik, 37-40.

Laugdælum gekk ekkert að skora í 3. leikhluta þar sem Bjarni Bjarnason skoraði 10 af 12 stigum liðsins í fjórðungnum. Heimamenn gengu á lagið og komust yfir og staðan var 58-52 snemma í síðasta leikhlutanum.

Leiknir hafði fimm stiga forskot, 65-60, þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum en þá skoruðu Laugdælir átta stig í röð. Leiknir svaraði fyrir sig og þegar 20 sekúndur voru eftir af leiknum komust þeir yfir, 72-70. Laugdælir héldu í sókn þar sem brotið var á Jóni H. Baldvinssyni. Hann fór á vítalínuna og jafnaði leikinn, 72-72, þegar 12 sekúndur voru eftir. Leiknismenn freistuðu þess að næla í sigur en þriggja stiga skot þeirra geigaði og í kjölfarið var brotið á Bjarna Bjarnasyni. Hann fór á vítalínuna á síðustu sekúndu leiksins og setti niður annað af skotum sínum til að tryggja Laugdælum sætan sigur.

Bjarni var stigahæstur hjá Laugdælum með 21 stig, Jón H. Baldvinsson skoraði 15, Pétur Már 14 og Sigurður Orri Hafþórsson 13.

Staðan í deildinni:
1 Þór Þ. 14/0
2 Þór Ak. 10/5
3 Skallagrímur 9/5
4 Breiðablik 9/5
5 Valur 8/6

6 FSu 8/6
7 Höttur 4/10
8 Laugdælir 4/10
9 Leiknir 3/12
10 Ármann 2/12

Næstu leikir:
09.02. Laugdælir-Þór Þ.