Mikilvægur sigur í Ólafsvík

Selfyssingar unnu gríðarlega mikilvægan sigur á Víkingi í Ólafsvík í 1. deild karla í knattspyrnu í dag. Lokatölur voru 0-1 og skoraði Jón Daði Böðvarsson markið.

Aðstæður til knattspyrnuiðkunar voru hinar bestu í Ólafsvík, þar rigndi fram eftir morgni en þegar leikurinn hófst brast á með bongóblíðu. Babacar Sarr og Arilíus Marteinsson voru í leikbanni og Sævar Þór Gíslason var í byrjunarliðinu í fyrsta skipti í sumar og Peter Klankar kom inn af bekknum aftur.

Leikurinn var tíðindalítill framan af á meðan liðin þreifuðu fyrir sér en Víkingar fengu fyrsta færið. Jóhann Ólafur Sigurðsson kom hins vegar til bjargar í marki Selfoss.

Hápunktur fyrri hálfleiks var þegar Valgeir Valgeirsson, dómari, þvældist fyrir Jóni Daða Böðvarssyni sem hljóp hann niður svo að Valgeir fékk blóðnasir. Skömmu síðar komst Viðar Örn í gott færi á markteignum en fékk boltann á lærið og gat ekki stýrt honum á markið.

Þegar leið á fyrri hálfleikinn þyngdist sókn Selfoss nokkuð og á 35. mínútu átti Joe Tillen gott skot af 25 metra færi sem fór í báðar markstangirnar áður en hann barst út í markteiginn. Augnabliki síðar slapp Sævar Þór innfyrir en náði ekki góðu skoti og Einar Hjörleifsson varði frá honum.

Viðar Kjartansson átti síðasta færi fyrri hálfleiks þegar hann átti gott skot að marki sem varnarmaður Víkings komst fyrir á síðustu stundu.

Staðan var 0-0 í leikhléinu og fyrstu fimmtán mínútur seinni hálfleiks voru tíðindalausar. Boltinn gekk illa á milli manna og leikurinn fór að mestu fram á miðsvæðinu. Eftir það kom góður kafli Víkinga þar sem þeir sköpuðu í tvígang usla í vítateig Selfoss. Selfyssingar svöruðu því hins vegar með glæsilega uppbyggðri sókn á 65. mínútu sem lauk með góðu skoti Jóns Daða Böðvarssonar að marki fyrir utan vítateig, boltinn fór í Viðar Örn og þaðan í netið framhjá Einari.

Markið sló Víkinga lítið út af laginu því þeir áttu nokkrar beittar sóknir í kjölfarið en inn fór boltinn ekki. Þeir vildu síðan fá vítaspyrnu á 80. mínútu þegar sóknarmaður þeirra datt auðveldlega í teignum. Þremur mínútum síðar fengu Selfyssingar dauðafæri þegar Jón Daði átti góðan skalla að marki eftir hornspyrnu Joe Tillen. Varnarmaður Víkings náði hins vegar að verja boltann á marklínunni.

Þetta var síðasta færi leiksins og með sigrinum halda Selfyssingar 2. sætinu og sex stiga forskoti á Hauka þegar níu stig eru eftir í pottinum.

Lið Selfoss: Jóhann Ólafur – Skjerve, Stefán Ragnar, Endre, Andri – Jón Daði, Klancar, Ottó, Tillen – Sævar (Ingólfur 72.), Viðar (Sene Abdahla 84.)
Ónotaðir varamenn: Elías, Sigurður Eyberg, Ingþór, Sidi Sow, Ingi Rafn.