Mikilvægur sigur í fallbaráttunni

Selfoss vann nokkuð öruggan sigur á botnliði Tindastóls í kvöld og náði í mikilvæg stig í fallbaráttunni í 1. deild karla í knattspyrnu.

Jafnræði var með liðunum framan af fyrri hálfleik, Selfyssingar áttu stangarskot strax á 2. mínútu en Andri Björn Sigurðsson braut ísinn á 22. mínútu eftir klafs í vítateig Tindastóls, 0-1.

Selfyssingar bættu við öðru marki á 36. mínútu, Elton Barros slapp þá einn innfyrir vörn Stólanna og kláraði færið vel, 0-2 í hálfleik.

Síðari hálfleikurinn var rólegri en sá fyrri en Selfyssingar áttu meðal annars sláarskot í upphafi hans. Færin voru ekki mörg þar fyrir utan og Selfyssingar lönduðu sanngjörnum 0-2 sigri.

Selfoss hefur nú 21 stig í 8. sæti deildarinnar en í næstu sætum fyrir neðan eru Haukar og BÍ/Bolungarvík með 20 stig. KV er komið í fallsæti með 17 stig og Stólarnir sitja kirfilega fastir í botnsætinu með 3 stig.

Næsti leikur Selfoss er gegn toppliði Leiknis á Selfossvelli á þriðjudaginn.

Fyrri greinGuðný ráðin aðstoðarleikskólastjóri
Næsta greinÖruggt hjá Árborg – Fjögur rauð í Hveragerði