Mikilvægur sigur hjá Hamri

Hamarsmenn unnu góðan sigur á ÍA í mikilvægum leik í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Lokatölur í Frystikistunni í Hveragerði voru 93-87.

Fyrri hálfleikur var í járnum og lítill munur á liðunum. Um miðjan 2. leikhluta hafði ÍA 36-42 forystu en Hamar svaraði með níu stigum í röð og komst yfir, 45-42. Skagamenn áttu hins vegar síðasta orðið í fyrri hálfleik og leiddu 45-48 í leikhléi.

Hvergerðingar voru sterkari í seinni hálfleik þó að gestirnir hafi andað niður um hálsmálið á þeim allan tímann. Staðan var 69-68 þegar síðasti fjórðungurinn hófst og Hamar náði að halda aftur af ÍA á lokakaflanum. Þegar tvær mínútur voru eftir var staðan 87-84 en Hvergerðingar kláruðu leikinn á vítalínunni á síðustu 70 sekúndunum.

Sigurinn var Hvergerðingum mikilvægur en þeir eru nú í 2. sæti deildarinnar með 8 stig en ÍA í 3. sæti með 6 stig.

Þorsteinn Gunnlaugsson var stigahæstur hjá Hamri, skoraði 25 stig og tók 13 fráköst. Julian Nelson skoraði 20 sti, Örn Sigurðarson 18, Halldór Gunnar Jónsson 12, Birgir Þór Sverrisson og Kristinn Ólafsson 5, Bjarni Rúnar Lárusson 4, Bjartmar Halldórsson 3 og Sigurður Orri Hafþórsson 1.