Mikilvægur sigur Hamars

Hamar vann mikilvægan sigur á Breiðabliki í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Naumari gat hann ekki verið því lokatölur voru 90-91.

Hamar byrjaði betur í leiknum en Blikar minnkuðu forskot Hvergerðinga niður í þrjú stig fyrir hálfleik, 42-45. Þriðji leikhluti var jafn og spennandi og liðin skiptust á að skora. Spennan hélt áfram í síðasta fjórðungnum þar sem Blikar leiddu með þremur stigum þegar ein og hálf mínúta var eftir, 89-86.

Hvergerðingar reyndust hins vegar sterkari á lokasekúndunum þar sem Samuel Prescott skilaði sínu á vítalínunni og þegar 23 sekúndur voru eftir kom Þorsteinn Gunnlaugsson Hamri yfir, 90-91, og þær reyndust lokatölur leiksins.

Þrjár umferðir eru eftir í deildinni og Hamar er nú í 6. sæti með 18 stig, tveimur stigum minna en ÍA og Valur. Hamar þarf að ná 2.-5. sæti til þess að komast í úrslitakeppni deildarinnar.

Tölfræði Hamars: Samuel Prescott Jr. 28 stig/11 fráköst/5 stoðsendingar, Sigurður Orri Hafþórsson 22 stig, Þorsteinn Gunnlaugsson 17 stig/11 fráköst/7 stoðsendingar, Snorri Þorvaldsson 17 stig, Oddur Ólafsson 7 stig/7 fráköst/5 stoðsendingar, Bjartmar Halldórsson 5 stoðsendingar.

Fyrri greinBragðdauft hjá Þórsurum
Næsta greinFlóahreppur lætur skrá hundruð fornminja