Mikilvægt stig í húsi

Kvennalið Selfoss gerði jafntefli í kvöld við Aftureldingu á útivelli í Pepsi-deildinni í knattspyrnu. Sigur hefði nánast tryggt öðru hvoru liðinu áframhaldandi sæti í deildinni en niðurstaðan varð 2-2 jafntefli.

Selfossliðið var á hælunum í fyrri hálfleik en komust þó yfir á 37. mínútu þegar varnarmaður Aftureldingar handlék boltann inni í teig og vítaspyrna var dæmd. Guðmunda Óladóttir fór á punktinn og kom Selfoss í 0-1. Forskotið hélst þó aðeins í fimm mínútur því Afturelding jafnaði eftir lélega hreinsun út úr vörn Selfoss á 42. mínútu og staðan var 1-1 í hálfleik.

Í seinni hálfleik var allt annað að sjá til Selfossliðsins sem barðist betur en þrátt fyrir það angaði Varmárvöllur af jafnteflislykt. Selfoss komst aftur yfir á 80. mínútu þegar Melanie Adelman skallaði boltann í netið en jöfnunarmark Aftureldingar lá í loftinu í kjölfarið og það kom úr vítaspyrnu á 87. mínútu eftir að Þóra Margrét Ólafsdóttir hafði brotið á sóknarmanni Mosfellinga.

Niðurstaðan varð því 2-2 jafntefli og bæði lið líklega jafn ósátt við þau úrslit. Frábær mæting var á völlinn og gerðu margir Selfyssingar sér leið í Mosfellsbæinn í kvöld til að styðja sitt lið.

Eftir fjórtán umferðir er Selfoss í 7. sæti með 13 stig, Afturelding hefur 12, Fylkir 11 og KR 2. Selfoss mætir ÍBV í næstu umferð en þar á eftir fylgir annar úrslitaleikur gegn Fylki á útivelli.