Mikilvægt stig á Nesinu

Selfoss og Grótta gerðu 29-29 jafntefli í botnbaráttu Olís-deildar karla í handbolta á Seltjarnarnesi í kvöld. Leikurinn var jafn og spennandi.

Grótta komst í 2-0 en eftir það var jafnt á flestum tölum í fyrri hálfleik. Þegar átta mínútur voru til leikhlés leiddi Grótta 11-10, en Selfoss skoraði þá fjögur mörk í röð. Staðan var 13-15 í hálfleik.

Í upphafi seinni hálfleiks skoraði Grótta tvö fyrstu mörkin og náði að jafna, 15-15. Eftir það voru heimamenn skefinu á undan en Selfyssingar jöfnuðu alltaf jafnharðan. Spennan var mikil þegar leið að leikslokum en þegar sjö mínútur voru eftir skoruðu Selfyssingar þrjú mörk í röð og komust yfir, 25-26. Grótta svaraði með tveimur mörkum í röð, en Selfoss jafnaði strax, 27-27, þegar fjórar mínútur voru eftir.

Þegar 50 sekúndur voru eftir af leiknum var staðan 29-29 og Grótta með boltann. Gróttumenn töpuðu honum hins vegar með ruðningi svo Selfyssingar fengu tækifæri til þess að skora sigurmarkið. Hergeir Grímsson kom boltanum í netið um leið og lokaflautan gall en dómararnir dæmdu markið ekki gilt.

Þrátt fyrir jafntefli geta Selfyssingar þakkað fyrir stigið því liðið hefur nú 18 stig og er þremur stigum frá fallsæti.

Einar Sverrisson var markahæstur Selfyssinga með 8 mörk, Teitur Örn Einarsson skoraði 7/2, Alexander Egan 5, Elvar Örn Jónsson 4, Hergeir Grímsson 3 og þeir Sverrir Pálsson og Árni Geir Hilmarsson skoruðu sitt markið hvor.

Einar Vilmundarson varði 6 skot í marki Selfoss og Helgi Hlynsson 4/1.