Mikilvæg stig í sarpinn

Selfoss vann mikilvægan sigur á Þrótti R. á útivelli í 1. deild karla í knattspyrnu í kvöld. Lokatölur urðu 1-2 og skoraði Luka Jagacic bæði mörk Selfoss.

Þróttarar byrjuðu betur í leiknum og voru líklegri framan af en Selfyssingar skoruðu hins vegar út fyrsta marktækifæri sínu, á 20. mínútu. Selfoss fékk þá aukaspyrnu á vallarhelmingi Þróttar, Þorsteinn Daníel Þorsteinsson lyfti boltanum inn á vítateiginn þar sem Luka Jagacic kom aðvífandi og afgreiddi boltann í netið.

Þróttarar jöfnuðu metin verðskuldað sex mínútum síðar þegar þeir spiluðu sig í gegnum Selfossvörnina og Aron Green kom knettinum framhjá Vigni Jóhannessyni í markinu.

Annars var fátt um færi það sem eftir lifði fyrri hálfleik, en á lokamínútu hans skallaði Bjarki Aðalsteinsson boltann í þverslána og yfir eftir hornspyrnu. 1-1 í hálfleik.

Síðari hálfleikur var tíðindalítill þar til Luka Jagacic skoraði sitt annað mark á 63. mínútu með góðum skalla eftir hornspyrnu Þorsteins Daníels.

Nokkrum mínútum síðar var leikmanni Þróttar vísað af velli með rautt spjald og manni fleiri náðu Selfyssingar að sigla sigrinum nokkuð örugglega í höfn.

Með sigrinum náðu Selfyssingar að spyrna sér fjær botnliðunum en þeir eru nú í 8. sæti með 18 stig. Næsti leikur liðsins er gegn HK á heimavelli næstkomandi fimmtudag.

Fyrri greinÖkumenn gefi sér góðan tíma
Næsta greinÁgúst skoraði og fékk rautt