Mikilvæg stig í húsi

Hamar krækti í mikilvæg stig í botnbaráttunni í Domino's-deild kvenna í körfubolta í kvöld þegar liðið lagði Hauka 65-61 í Hveragerði.

Haukar léku án Lele Hardy, sem tók út leikbann, og munaði um minna. Gestirnir höfðu frumkvæðið í 1. leikhluta og leiddu að honum loknum, 8-13. Hamar komst yfir um miðjan 2. leikhluta, 25-24 en Haukar svöruðu með 2-11 áhlaupi og leiddu í kjölfarið í hálfleik, 29-35.

Haukar héldu forskoti sínu í 3. leikhluta og í upphafi þess fjórða leiddu gestirnir 47-55. Þá kom frábær kafli hjá Hvergerðingum og Þórunn Bjarnadóttir og Sydnei Moss röðuðu niður fimmtán stigum í röð gegn tveimur stigum Hauka.

Hamar var þá með fimm stiga forystu, 62-57, og rúmlega tvær og hálf mínúta eftir. Haukar settu niður fjögur stig í röð og minkuðu muninn í eitt stig en Sóley Guðgeirsdóttir sallaði niður þremur vítaskotum á lokasekúndunum og Hamar vann sætan sigur.

Sydnei Moss skoraði 19 stig fyrir Hamar og Þórunn Bjarnadóttir 16 en besti maður vallarins var Salbjörg Sævarsdóttir sem skoraði 14 stig, tók 12 fráköst og varði 8 skot. Heiða B. Valdimarsdóttir skoraði 7 stig, Sóley Guðgeirsdóttir 5 og þær Álfhildur Þorsteinsdóttir og Helga Vala Ingvarsdóttir skoruðu 2 stig hvor.

Fyrri greinSverrir í rammann hjá Mílan
Næsta greinByggt við Sunnulækjarskóla fyrir 380 milljónir króna