Mikilvæg stig hjá KFR

KFR vann mikilvægan sigur í botnbaráttu 3. deildar karla í knattspyrnu í dag og í 4. deildinni vann Hamar öruggan sigur í lokaumferðinni.

Á Hvolsvelli mættust KFR og Vængir Júpíters og þar kom Goran Jovanovski KFR yfir á 11. mínútu leiksins. Gestirnir jöfnuðu á 29. mínútu og staðan var 1-1 í hálfleik.

Vængir Júpíters komust svo yfir á 56. mínútu en Przemyslaw Bielawski jafnaði jafnóðum fyrir KFR. Gunnar Bent Helgason kom svo til bjargar þegar sex mínútur voru eftir af leiknum og tryggði KFR 3-2 sigur með góðu marki.

Þrátt fyrir sigurinn lyftist KFR ekki upp um sæti á töflunni því Dalvík/Reynir vann einnig sinn leik í dag. KFR er því áfram í 9. sæti, fallsæti, með 12 stig en Dalvík/Reynir í 8. sæti með 12 stig.

Hamar sótti Vatnaliljur heim í 4. deildinni. Tómas Aron Tómasson kom Hamri yfir strax á 6. mínútu og nafni hans Hassing bætti öðru marki við á 51. mínútu. Heimamenn náðu að minnka muninn þegar rúmar tíu mínútur voru eftir en Oddur Hólm Haraldsson innsiglaði 1-3 sigur Hamars á lokamínútunni.

Hamar lauk riðlakeppninni í 2. sæti D-riðils með 36 stig en framundan er úrslitakeppni 4. deildarinnar þar sem liðið mætir Hvíta riddaranum í 8-liða úrslitum.