Mikilvæg stig hjá Ægi – KFR bjargaði sér

Ægir vann mikilvægan sigur í botnbaráttu 2. deildar karla í knattspyrnu í dag og á sama tíma bjargaði KFR sér frá falli úr 3. deildinni með sannfærandi sigri.

Ægir heimsótti botnlið Dalvíkur/Reynis á Dalvík. Milan Djurovic kom Ægi yfir á 22. mínútu og á lokamínútu fyrri hálfleiks kom Þorkell Þráinsson Ægi í 0-2. Andri Sigurðsson bætti svo við þriðja markinu þegar rúmt korter var liðið af seinni hálfleik og lokatölur urðu 0-3.

Ægir lyfti sér úr fallsæti upp í 8. sæti deildarinnar með 20 stig en liðið er í feykiþéttum pakka fimm liða í 7. til 11. sæti. Tvær umferðir eru nú eftir af deildinni og ljóst að það mun ekki ráðast fyrr en í lokaumferðinni hvaða lið fellur með Dalvíkingum.

Í 3. deildinni valtaði KFR yfir Kára frá Akranesi á SS-vellinum á Hvolsvelli og björguðu Rangæingar sér þannig frá falli.

Guðmundur Garðar Sigfússon kom KFR yfir á 6. mínútu leiksins og tíu mínútum síðar tvöfaldaði Goran Jovanovski forystu KFR.

Staðan var 2-0 í hálfleik gestirnir minnkuðu muninn í 2-1 á fyrstu fimmtán mínútum síðari hálfleiks. Þeir Guðmundur og Goran svöruðu jafnharðan og bættu við tveimur mörkum á þriggja mínútna kafla um miðjan seinni hálfleik. Bjarki Axelsson innsiglaði svo 5-1 sigur liðsins, nýkominn inná sem varamaður á 84. mínútu.

KFR er áfram í 8. sæti deildarinnar, nú með 18 stig, og ljóst að Berserkir geta ekki náð þeim að stigum. Berserkir og Álftanes falla niður í 4. deild.

Fyrri grein„Stjórnuðum leiknum frá A til Ö“
Næsta greinHulda keppti í London