Mikilvæg stig á Húsavík

Kvennalið Selfoss í knattspyrnu vann góðan sigur á Völsungi á útivelli í dag, 0-1, þegar þau mættust í B-riðli 1. deildar.

„Þetta var mjög jafn leikur og við áttum ekki góðan dag gegn sterku liði Völsungs. Við vorum heppnar að fara heim með þrjú stig þó að við höfum fengið mjög góð færi alveg eins og þær. Jafntefli hefði kannski verið sanngjarnt,“ sagði Þóra Margrét Ólafsdóttir, leikmaður Selfoss í samtali við sunnlenska.is.

Fyrri hálfleikur var markalaus en Selfyssingar voru heppnir að missa ekki Dagnýju Pálsdóttur, markmann, af velli í fyrri hálfleik þegar hún braut á sóknarmanni Völsungs og slapp með gula spjaldið.

Guðmunda Brynja Óladóttir skoraði eina mark leiksins í upphafi seinni hálfleiks og þar við sat þó að bæði lið fengju fín færi. Dagný varði mjög vel þegar sóknarmaður Völsungs slapp einn innfyrir og Selfyssingar gerðu tilkall til vítaspyrnu þegar brotið var á Guðmundu innan teigs en ekkert dæmt.

Að loknum tveimur umferðum eru Selfyssingar í 1.-2. sæti með 6 stig og markatöluna 4-0, rétt eins og lið Hauka. Næsti leikur Selfoss er á fimmtudaginn gegn ÍR á útivelli.

Fyrri greinGóð þátttaka í Kvennahlaupinu
Næsta greinSjómannadagurinn á Stokkseyri