Mikill viðsnúningur á rekstrinum

Mikil viðsnúningur varð á rekstri Golfklúbbs Selfoss í ár, miðað við síðustu ár. Hagnaður af rekstri klúbbsins var rúmar 3,8 milljónir króna.

Þetta kom fram á aðalfundi klúbbsins sem haldinn var í golfskálanum á Svarfhóli í gærkvöldi.

Tekjur klúbbsins voru rúmar 32,1 milljónir króna en gjöldin rúmlega 26,9 milljónir. Að frádregnum vaxtagjöldum var hagnaðurinn 3.823.523 krónur.

Árið 2011 voru tekjur klúbbins rúmum sex milljónum króna lægri en í ár og það ár var taprekstur upp á rúmar 2,3 milljónir króna.

Tekjuaukning liggur helst í aukningu á mótagjöldum, flatargjöldum, útseldri vinnu og styrk frá Árborg, sem hækkaði um eina milljón.

Einnig var mikil aukning á notkun Svarfhólsvallar þetta árið. Alls voru spilaðir 9.777 hringir og er það aukning upp á tæplega 4.000 hringi frá árinu 2011.

Mikil fjölgun varð í Golfklúbbi Selfoss árið 2012 og þá sérstaklega hjá konunum. Inn komu 123 nýjir félagsmenn í GOS en 45 hættu. Félagar í GOS í dag eru 298 en árið 2011 voru þeir 220, svo það er aukning upp á 78 meðlimi.

Á aðalfundinum í gærkvöldi var Bárður Guðmundarson endurkjörinn formaður GOS en hann hefur sinnt formennsku frá árinu 2006. Auk Bárðar eru í stjórninni þau Jens Uwe Friðriksson, Jónbjörg Kjartansdóttir, Halldór Morthens og Axel Óli Ægisson sem kemur nýr inn í stjórn.

Fyrri greinHlynur Geir kylfingur ársins hjá GOS
Næsta greinTrönuspjallið sló í gegn