Mikill ungmennafélagsandi hjá Hrunamönnum

Hrunamenn mæta til leiks á Íslandsmót karla í knattspyrnu í sumar. Þetta er í fyrsta skipti í 99 ára sögu félagsins sem meistaraflokkur í knattspyrnu er starfræktur.

Gestur frá Hæli spjallaði við Jón Þorgeir Aðalsteinsson, þjálfara Hrunamanna, í Sportþættinum mánudagskvöld á Suðurland FM í gærkvöldi. Viðtalið má heyra í spilaranum hér að neðan.

„Þetta eru allt heimamenn eða með tengingu á Suðurlandsundirlendið. Gleðin verður í fyrirrúmi og vonandi náum við góðum úrslitum líka,“ segir Jón Þorgeir.

„Það er mikill ungmennafélagsandi sem ríkir í herbúðum Hrunamanna og allir eru tilbúnir að gera allt. Það er mikil jákvæðni og bjartsýni sem ríkir hér í sveitarfélaginu og ég vona bara að þetta sé byrjunin á einhverju stóru miðað við áhugann,“ bætir Jón Þorgeir við.

Hrunamenn eru í C-riðli 4. deildar og meðal mótherja þeirra í sumar er lið Árborgar. Fyrsti leikur Hrunamanna í deildinni er 22. maí gegn Létti á útivelli en fyrsti heimaleikurinn er á Flúðavelli 29. maí gegn Úlfunum.

„Það verður stórkostlegt og mikið lagt í fyrsta heimaleikinn okkar,“ segir Jón Þorgeir.

Fyrri greinÁgúst Elvar ráðinn verkefnastjóri ferðamála
Næsta greinBFÁ fékk bát að gjöf frá aðstandendum Guðmundar Geirs