„Mikil tilhlökkun að byrja“

Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Pepsi Max deild kvenna í knattspyrnu hófst í gær og fyrsti leikur kvennaliðs Selfoss er í kvöld á útivelli gegn nýliðum Keflavíkur.

„Eins og alltaf er mikil tilhlökkun að byrja. Það hafa orðið miklar breytingar hjá okkur á milli ára, eins og hjá mörgum öðrum liðum í deildinni, og liðin hafa ekki spilað mikið í vor þannig að maður veit lítið hvað maður er að fara í. Það eru mörg lið búin að missa leikmenn og mörg lið búin að styrkja sig. Þetta snýst bara um hver verður búinn að drilla sitt lið best, segir Alfreð Elías Jóhannsson,“ þjálfari Selfoss.

Selfoss varð í 4. sæti á síðustu leiktíð, sem tókst reyndar ekki að ljúka vegna kórónuveirufaraldursins. Sparkspekingar spá því að liðið verði á svipuðum slóðum í sumar og allir eru sammála um að Valur verði Íslandsmeistari.

Fyrirliðar, þjálfarar og forráðamenn liðanna í deildinni spá Selfyssingum 4. sæti og það sama gera spámenn fotbolti.net. Spámenn Morgunblaðsins setja Selfoss hins vegar í 3. sætið.

„Við höfum orðið fyrir mikilli blóðtöku, erum búin að missa marga lykilmenn en við erum á góðri leið að byggja upp gott lið aftur. Við erum búin að fá mjög flotta leikmenn til liðs við okkur. Ég held að spáin hjá sparkspekingunum sé alveg raunhæf en við vitum það líka að það þarf margt að smella saman og það mun margt ganga á. Það eru alltaf einhver meiðsli og eitthvað óvænt sem kemur upp, þannig að það er gott að vera með stóran og góðan hóp. Við teljum að við séum með fínan hóp, frábærar heimastelpur og sterka erlenda leikmenn,“ segir Alfreð ennfremur.

Selfoss byrjar á tveimur erfiðum útileikjum, gegn nýliðum Keflavíkur í kvöld og gegn Þór/KA á Akureyri næstkomandi þriðjudag. Fyrsti heimaleikurinn er gegn Stjörnunni þann 15. maí.

Fyrri greinSS styrkir KFR
Næsta greinTveir erlendir ferðamenn stöðvaðir fyrir hraðakstur