Mikil spenna í 2. deildinni

Hrvoje Tokic skoraði mark Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar eru komnir niður í 3. sætið í 2. deild karla í knattspyrnu eftir 2-1 tap gegn Völsungi á Húsavík í dag.

Ásgeir Kristjánsson kom Völsungi yfir á 28. mínútu og staðan var 1-0 í leikhléi. Sverrir Hjaltested tvöfaldaði forskot heimamanna á 58. mínútu en fjórum mínútum síðar minnkaði Hrvoje Tokic muninn fyrir Selfoss. Bæði lið áttu álitlegar sóknir í kjölfarið en tókst ekki að skora fleiri mörk.

Selfoss hefur 17 stig í 3. sæti deildarinnar, eins og Völsungur sem er í 4. sætinu. Vestri sigraði topplið Leiknis Fáskrúðsfirði í dag og fór því upp í 2. sætið með 18 stig en liðin í 2.-6. sæti í deildinni eru í þéttum pakka og munar aðeins tveimur stigum á 2. og 6. sæti.

Næsti leikur Selfoss er á heimavelli gegn Kára á fimmtudagskvöld.

Fyrri greinHundi bjargað úr sprungu á Þingvöllum
Næsta greinHákon keppti í hitanum á Ítalíu