„Mig langaði að stela þessu“

Pachu í leik með Selfyssingum gegn Grindavík sumarið 2016. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss og Grindavík gerðu 1-1 jafntefli í Inkasso-deildinni í knattspyrnu þegar liðin mættust í hörkuleik á JÁVERK-vellinum í kvöld.

„Þetta var skemmtilegur leikur tveggja góðra liða. Það var mikill hraði í leiknum og þess vegna var nokkuð um misheppnaðar sendingar, menn voru að sækja hratt og reyna en mér fannst þetta bara gaman og úrslitin nokkuð sanngjörn heilt yfir,“ sagði Gunnar Rafn Borgþórsson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

„Þeir fengu fleiri og betri færi en við, en mér fannst uppleggið okkar ganga vel. Við vörðumst vel þó að þeir hafi aðeins náð að opna okkur á tíu mínútna kafla í fyrri og seinni hálfleik. Það leit ekki vel út en við náðum að laga það,“ sagði Gunnar en eftir að Selfoss jafnaði á 85. mínútu pressuðu þeir Grindvíkinga grimmt og hefðu jafnvel getað stolið sigrinum.

„Mig langaði mjög mikið að stela þessu í lokin. Við förum alltaf í eitthvað svona, við nennum ekki að hanga á einu stigi, við erum búnir að gera mikið af jafnteflum og mig langar að reyna. Það hefur virkað stundum en við höfum líka fengið það í bakið. Þetta sýnir líka bara hjartað og formið á liðinu,“ sagði Gunnar ennfremur.

Selfyssingar voru sterkari framan af fyrri hálfleik og Arnór Ingi Gíslason fékk frábært færi á 22. mínútu þegar hann átti fastan skalla rétt yfir mark Grindavíkur.

Þegar leið á fyrri hálfleikinn tóku gestirnir völdin en áttu fáar marktilraunir þar sem Selfossvörnin stóð vaktina vel, 0-0 í hálfleik.

Seinni hálfleikur var fjörugri en sá fyrri og bæði lið áttu ágæta spretti framan af. Þegar leið á voru Grindvíkingar meira með boltann og áttu hættulegar sóknir en það var ekki fyrr en á 72. mínútu að ísinn var brotinn. Alexander Þórarinsson skoraði þá með góðu skoti úr vítateignum.

Eftir markið benti fátt til þess að Selfyssingar næðu vopnum sínum á nýjan leik en þegar fimm mínútur voru efir breyttist það. Markvörður Grindavíkur fór þá í skelfilegt úthlaup og reyndi að kýla knöttinn um leið og JC Mack stökk upp og skallaði. Þeir lentu saman og dómarinn dæmdi réttilega brot á markmanninn og vítaspyrnu.

Pachu fór á vítapunktinn og skoraði af miklu öryggi. Í kjölfarið sóttu Selfyssingar látlaust að marki Grindavíkur en tókst ekki að krækja í sigur. Niðurstaðan sanngjarnt 1-1 jafntefli.