Miðjumark Inga Rafns dugði til sigurs

Eftir þrjá leiki í röð án sigurs náðu Selfyssingar að leggja ÍA að velli í 1. deild karla í knattspyrnu í kvöld, þegar liðin mættust á JÁVERK-vellinum á Selfossi.

Lokatölur urðu 1-0 en Ingi Rafn Ingibergsson skoraði eina mark leiksins með mögnuðu skoti frá miðju. Markið var langþráð en 329 mínútur voru liðnar frá síðasta marki Selfossliðsins.

„Þetta var ágætt, hann var búinn að standa fyrir utan teig og rífa kjaft allan tímann þannig að ég varð að slumma boltanum yfir hann. Ég þarf að vera klókur af því að ég get ekki hlaupið nógu hratt og ég sá fyrir þversendingu á miðjunni hjá þeim. Boltinn datt akkúrat fyrir hægri fótinn á mér og þegar ég leit upp þá sá ég að markmaðurinn var að bakka á fullu þannig að ég ákvað að láta vaða. Ég hélt reyndar að boltinn væri á leiðinni yfir en það var mjög sætt að sjá marknetið þenjast út,“ sagði markaskorarinn í samtali við sunnlenska.is eftir leik. Og Ingi Rafn var ánægður með leikinn:

„Við mættum stemmdir til leiks eins og sjá mátti. Þetta er búið að vera að batna hjá okkur í síðustu leikjum, fókusinn er betri og menn eru ákveðnari. Það er líka betri og jákvæðari stemmning í stúkunni og við finnum það vel,“ sagði Ingi Rafn og bætti við að þetta væri góður árangur til þess að byggja ofan á.

„Við erum að vinna baráttusigur á einu af betri liðunum í deildinni og spila ágætis fótbolta. Við duttum aðeins niður í lokin og þeir fóru að dæla boltum fram en við náðum að verjast því ágætlega.“

Skagamenn voru sprækari framan af leiknum og áttu meðal annars skalla í þverslána eftir hornspyrnu, snemma leiks. Annars voru færin ekki mörg í fyrri hálfleik, Svavar Jóhannsson komst næst því að skora fyrir Selfoss þegar hann slapp innfyrir á 10. mínútu en markvörður ÍA varði nokkuð auðveldlega frá honum.

Gestirnir byrjuðu með boltann í seinni hálfleik en nokkrum sekúndum síðar hafði Ingi Rafn unnið knöttinn og skorað. Tveimur mínútum síðar fékk ÍA aukaspyrnu á hættulegum stað sem Vignir Jóhannesson varði vel.

Annars voru Selfyssingar miklu sterkari lengst af síðari hálfleik og fengu nokkur prýðileg færi sem þeir fóru ákaflega illa með.

Síðustu tíu mínúturnar þyngdust sóknir gestanna en þær brotnuðu allar á Selfossvörninni. Fimm mínútum fyrir leikslok kom hættulegasta færi ÍA. Hjörtur Hjartarson lúrði á fjærstönginni, sínum uppáhalds í hornspyrnu, en einhvernveginn tókst honum að moka boltanum framhjá marki Selfoss af mjög stuttu færi.

Stigin þrjú sem Selfyssingar lönduðu í kvöld náðu að fleyta liðinu upp í 7. sæti deildarinnar. Selfoss hefur nú fimmtán stig og mætir næst Víkingi Ól á heimavelli næstkomandi föstudag.

Fyrri greinStaðfest að líkið er af Ástu
Næsta greinBragi og Bergþór í Strandarkirkju