#metoo bylting og aðgerðir ræddar á héraðsþingi HSK

Mikil umræða var um #metoo byltinguna svokölluðu á héraðsþingi HSK, sem haldið var í Þorlákshöfn á dögunum. Í ræðu Guðríðar Aadnegard, formanns HSK, við setningu héraðsþingsins var henni tíðrætt um #metoo byltingununa.

Þessi mál voru einnig rædd í starfsnefndum héraðsþingsins og voru þrjár tillögur samþykktar á þinginu.

Héraðsþingið skorar á sveitarfélög sambandssvæðisins að skilyrða fjárveitingar til íþróttafélaga sem bjóða upp á starf með börn og ungmennum því að félögin setji sér siðareglur, jafnréttisstefnu, viðbragðsáætlanir og fræði sitt fólk um ofbeldi, kynferðislega áreitni og kynferðisofbeldi. Í greinargerð með áskoruninni segir að mikilvægt sé að félög sýni fram á að farið sé eftir jafnréttisáætlunum og jafnréttislögum í starfi sínu. Séu slíkar reglur nú þegar til staðar hvetur stjórn HSK sveitarfélög til að yfirfara sínar stefnur með þetta í huga.

Einnig var samþykkt tillaga þar sem skorað er á stjórnendur, forsvarsmenn og þjálfara í félögum innan HSK að bregðast við og leggja sitt af mörkum í baráttunni gegn hvers kyns ofbeldi innan félaganna, með því að setja sér siðareglur og gera viðbragðsáætlanir. Mikilvægt sé að HSK leggi línur og sé leiðandi í þessu verkefni og aðstoði félögin eins og kostur er.

Þá var einnig samþykkt tillaga þar sem skorað er á ÍSÍ og UMFÍ að koma á fót fagráði og umboðsmanni iðkenda eða sambærilegu embætti til að hugsa um hag íþróttafólks, þarfir þeirra, réttindi og fleira. Í greinargerð með tillögunni segir að í mörgum minni félögum geti verið vandasamt að taka á málum þar sem nálægð, frændskapur og vinskapur er mikill. Því er nauðsynlegt að hægt sé að fara með svona mál til hlutlausra aðila til skoðunar og úrvinnslu.

Fyrri greinStyrktaraðilum yngri flokka þakkað
Næsta greinJana Lind Íþróttamaður Garps