Metkast Bryndísar Emblu skilaði silfurverðlaunum

Bryndís Embla, Hildur Helga og Hugrún Birna á mótinu á Akureyri. Ljósmynd/Þuríður Ingvarsdóttir

Hin 15 ára gamla Bryndís Embla Einarsdóttir, Umf. Selfoss, vann silfurverðlaun í spjótkasti kvenna á Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum sem haldið var á Akureyri um helgina.

Bryndís Embla kastaði 600 gr spjóti 44,61 m og bætti sinn besta árangur um 2,58 m. Með þessu kasti bætti Bryndís Embla 26 ára gamalt Íslandsmet Sigrúnar Fjeldsted um 41 cm í flokki 15 ára. Kastið er einnig HSK met í flokkum 15 ára, 16-17 ára, 18-19 ára og 20-22 ára. Árangurinn setur Bryndísi Emblu í 10. sæti á Evrópulistanum og 30. sæti á heimslistanum í flokki 17 ára og yngri.

Egill Atlason Waagfjörð, Umf. Kötlu, vann silfurverðlaun á meistaramótinu í þrístökki karla en hann stökk 12,69 m.

Tveir aðrir Sunnlendingar tóku þátt í mótinu. Hildur Helga Einarsdóttir, Umf. Selfoss, náði ársbesta árangri sínum í kúluvarpi, kastaði 11,12 m og varð í 5.sæti og Hugrún Birna Hjaltadóttir, Umf. Selfoss, varð í 6. sæti í langstökki, stökk 5,10 m og 5. sæti í þrístökki þar sem hún stökk 10,31 m.

Fyrri greinStoltur af samfélaginu í Árborg
Næsta greinSelfoss í fallsæti eftir tap gegn Grindavík