Metin féllu á Kastþraut Óla Guðmunds

Keppendur í Kastþraut Óla Guðmunds 2020. Ljósmynd/Aðsend

Örn Davíðsson, Umf. Selfoss, og Vigdís Jónsdóttir, FH, sigruðu í Kastþraut Óla Guðmunds, árlegu frjálsíþróttamóti á Selfossi þar sem keppt er í kastgreinum.

Mótið fór fram þann 4. september síðastliðinn en í Kastþraut Óla Guðmunds er keppt í sleggjukasti, kúluvarpi, kringlukasti, spjótkasti og lóðkasti og safna menn stigum með árangri sínum í hverri grein.

Örn hlaut 3.427 stig í karlakeppninni, annar varð Mímir Sigurðsson, FH, með 3.338 stig og þriðji Jón Bjarni Bragason, Breiðablik, með 3.040 stig.

Í kvennaflokknum hlaut Vigdís 3.178 stig, önnur varð Álfrún Diljá Kristínardóttir, Umf. Selfoss, með 1.941 stig og þriðja Kristín Karlsdóttir, FH, með 790 stig.

Fjöldi meta féll á mótinu og meðal annars bætti Hilmar Örn Jónsson, FH, Íslandsmetið í lóðkasti, en hann kastaði 15 kg lóði 21,87 m og bætti tíu ára gamalt met Bergs Inga Péturssonar, FH, um 38 sm. Hilmar Örn eru báðir sleggjukastarar en ekki er algengt að keppt sé í lóðkasti og eru sleggjukastarar iðulega sterkir í þessari grein.

Álfrún Diljá Kristínardóttir setti þrjú Íslandsmet unglinga í lóðkasti, og að sjálfsögðu um leið héraðsmet. Hún kastaði 8 kg lóði 11,51 m og setti þar með Íslandsmet í 14 ára flokki, 15 ára flokki og 16-17 ára flokki. Álfrún átti sjálf héraðsmetið í 14 ára flokknum, en hún bætti sig um rúmlega þrjá metra á mótinu. Hildur Helga Einarsdóttir átti gamla héraðsmetið í 15 ára flokki og Eva Lind Elíasdóttir í 16-17 ára flokki.

Héraðsmetið í lóðkasti í flokki 16-17 ára var þríbætt á mótinu eftir harða keppni Einars Árna Ólafssonar og Benjamíns Guðnasonar. Það var enginn annar en læknirinn góðkunni, Óskar Reykdalsson, sem átti HSK-metið í þessum flokki og var það sett árið 1976. Met Óskars var 10,21 m en Einar Árni bætti það þegar hann kastaði 10,34 m. Þá tók Benjamín risakast sem mældist 11,30 m en Einar Árni tók þá heldur betur við sér og þeytti lóðinu 11,70 m.

Þá bætti Örn Davíðsson HSK metið í lóðkasti 30-34 ára öldunga. Það var mótshaldarinn Ólafur Guðmundsson sem átti gamla metið, 12,72 m en Örn stórbætti það og kastaði 14,42 metra.

Efstu keppendur í kvennaflokki ásamt Óla Guðmunds. Ljósmynd/Aðsend
Efstu keppendur í karlaflokki ásamt Óla Guðmunds. Ljósmynd/Aðsend
Einar Árni og Benjamín kepptust um að bæta héraðsmet 16-17 ára í lóðkasti. Ljósmynd/Aðsend
Álfrún Diljá Kristínardóttir setti þrjú Íslandsmet í lóðkasti. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinNý verslun Rekstrarlands opnar á Selfossi
Næsta greinFlugvél brotlenti í Flóahreppi