Metaregn á Selfossi – Álfrún og Daníel settu Íslandsmet

Álfrún Diljá Kristínardóttir. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ungir frjálsíþróttamenn á Selfossi hafa raðað inn Íslands- og héraðsmetum á síðustu dögum og vikum. 

Álfrún Dilja Kristínardóttir, Umf. Selfoss, setti tvö landsmet með 3 kg sleggju í flokki 14 ára stúlkna á tveimur mótum á Selfossi með þriggja daga millibili í síðustu viku.

Á Slúttmóti Selfoss 19. ágúst kastaði hún lengst 40,40 metra og bætti átta ára Íslandsmet Fríðu Bjarkar Einarsdóttur úr UFA um átta sentimetra. Kastið var sömuleiðis héraðsmet í 15 ára flokki og og í 16-17 ára flokki en þær Jónína Guðný Jóhannsdóttir og Thelma Björk Einarsdóttir áttu þau met. 

Álfrún lét ekki þar við sitja, en þremur dögum síðar bætti hún eigið landsmet í sleggjunni, kastaði 41,05 m. Álfrún hefur bætt árangur sinn jafnt og þétt undanfarnar vikur og hefur samtals sett nítján HSK met í sleggjukasti í sumar.

Þá bætti Daníel Breki Elvarsson Íslandsmetið í spjótkasti í 14 ára flokki með 700 gr spjóti á frjálsíþróttamóti á Selfossi þann 12. ágúst sl. Daníel Breki kastaði spjótinu lengst 42,93 metra og bætti þar með níu ára gamalt Íslandsmet Styrmis Dan Hansen Steinunnarson úr Þór Þorlákshöfn. Gamla metið var 41,18 metrar, sett árið 2011. Þetta er að sjálfsögðu einnig HSK met í sama aldursflokki.

Fleiri HSK met voru sett á Selfossmótunum í ágúst. Eydís Arna Birgisdóttir bætti metið í 200 m hlaupi 13 ára stúlkna, hljóp á 28,23 sek. Hrefna Sif Jónasdóttir átti gamla metið.

Daníel Breki Elvarsson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinEkið á hund og kött í síðustu viku
Næsta greinAugnabliks einbeitingarleysi kostaði stig