Metaregn á frjálsíþróttavellinum

Í lok sumars voru haldin tvö innanfélagsmót hjá Umf. Selfoss fyrir keppendur 14 ára og yngri, til að gefa krökkunum kost á að bæta sinn árangur áður en innanhús tímabilið byrjar.

Þessi mót gengu heldur betur vel þar sem ein átta HSK met féllu og fjögur íslandsmet en keppt var í þrístökki og sleggjukasti á báðum mótunum. Í 11 ára flokkum er reyndar ekki talað um Íslandsmet en að ná í efsta sæti á afrekalista Frjálsíþróttasambands Ísland er auðvitað sambærilegt.

Á fyrra mótinu voru slegin tvö HSK met og eitt Íslandsmet í sleggjukasti. Hjalti Snær Helgason, 11 ára, kastaði sleggjunni (2kg) 24,06m og setti þar með HSK met í sínum flokki Vilhelm Freyr Steindórsson, 12 ára, var að keppa á sínu fyrsta móti og gerði sér lítið fyrir og setti bæði HSK og Íslandsmet þegar hann kastaði sleggjunni (3kg) 25,35 m.

Á síðara mótinu féllu sex HSK met og þrjú Íslandsmet.

Benjamín Guðnason, 10 ára, bætti HSK met Hjalta Snæs í 11 ára flokki þegar hann kastaði sleggjunni (2kg) 26,17 m. Þessi árangur skilar honum einnig í efsta sæti afrekalista Íslands í 10 og 11 ára flokkum .

Vilhelm Freyr Steindórsson, 12 ára, bætti eigið HSK og Íslandsmet frá fyrra mótinu um tæpa 5 m þegar hann kastaði sleggjunni (3kg) 30,05 m.

Elisa Rún Siggeirsdóttir, 14 ára, gerði sér lítið fyrir og bætti eigið HSK met í sleggjukasti (3kg) um rúman metra og kastaði 29,04 m.

Eva María Baldursdóttir, 11 ára, skaust upp í toppsæti afrekalista Íslands í 11 ára flokknum í þrístökki þegar hún stökk 9,06m og setti auðvitað um leið HSK met.

Aron Fannar Birgisson, 11 ára, bætti HSK metið í þrístökki í sínum flokki er hann stökk 8,88 m.

Kolbeinn Loftsson, 12 ára, setti einnig HSK met í þrístökki þegar hann stökk 10,27 m en hann átti einmitt metið í 11 ára flokknum.

Margir aðrir keppendur bættu sinn persónulega árangur og of langt að telja það upp hér, en glæsilegur árangur hjá krökkunum og framtíðin í frjálsum er greinilega mjög björt á Suðurlandi.

Fyrri greinLögreglan fann tvo hunda í Þórsmörk
Næsta greinDeilt um birtingu gagna í sorpútboði í Ölfusi